Hermenn frá Saudi-Arabíu, sem notaðir voru til þess að berja niður mótmæli og kröfur um lýðræði í nágrannaríkinu Bahrain í mars síðastliðnum, voru þjálfaðir af Bretum. Þetta kemur fram í frétt breska dagblaðsins Independent í dag.
Breska varnarmálaráðuneytið staðfestir í frétt blaðsins að Bretar hafi haldið námskeið fyrir þjóðvarðlið Saudi-Arabíu í vopnaburði og annarri hertækni auk þess til að mynda hvernig taka eigi á óeirðum.
Um 1.200 hermenn úr þjóðvarðliðinu voru sendir til Bahrain til þess að berja niður mótmælin þar en stjórnvöld í ríkinu hafa verið harðlega gagnrýnd fyrir mikla hörku sem beitt var í því skyni.
Ástæða þess að Bretar hafi komið að þjálfun hermannanna er sú að sögn varnarmálaráðuneytisins að konungsfjölskyldan í Saudi-Arabíu hafi ekki treyst því að her landsins myndi koma í veg fyrir uppreisn gegn henni. Því hefði hún talið sig þurfa á sérþjálfuðum hermönnum sér til verndar sem hún gæti treyst á.
Frétt Independent, sem byggð er á upplýsingum sem fengust gefna upp á grundvelli breskra upplýsingalaga, kemur stuttu eftir að breskir ráðamenn ásamt ráðamönnum fleiri vestrænna ríkja lýstu yfir stuðningi við mótmæli í Miðausturlöndum og Norður-Afríku þar sem krafist væri lýðræðis.