Þýskum kjarnorkuverum lokað

Þýska ríkisstjórnin hefur náð samkomulagi um lokun kjarnorkuvera landsins. Rekstur þeirra verður að fullu stöðvaður á árinu 2022, að sögn umhverfisráðherranns Norberts Rottgen.

Rottgen skýrði frá samkomulaginu við lok ríkisstjórnarfundar um málið sem hófst í gær og lauk ekki fyrr en undir morgun í dag.

Angela Merkel kanslari skipaði siðferðisnefnd til að skoða valkosti í kjarnorkumálum eftir slysið í Fukushima í Japan. Í framhaldi af slysinu hafa umfangsmikil mótmæli gegn rekstri kjarnorkuvera farið fram í Þýskalandi.

Rottgen sagði að sjö elstu kjarnaofnarnir, sem slökkt var á fyrir skömmu, yrðu ekki ræstir að nýju og heldur ekki Kruemmel kjarnorkuverið. Sex aðrir ofnar myndu stöðvast árið 2021 og hinir þrír síðustu og nýjustu árið 2022.

„Þetta er varanlegt. Slökkt verður á síðustu verunum árið 2022. Ákvörðunin verður ekki hægt að endurskoða,“ sagði ráðherrann.

Fyrir fundinn í gær sagði Merkel að álitamálin sem skoða þyrfti væru mörg. Vildu menn leggja eitthvað niður yrði að liggja ótvírætt fyrir að breytingin gengi upp og hvernig hægt væri að taka upp varanlega endurnýjanlega orkugjafa.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert