Jacob Zuma, forseti Suður-Afríku, kom til Líbíu í gær til að reyna að finna friðsamlega lausn á átökunum þar í landi. Líbíska sjónvarpið sýndi myndir af Zuma og Múammar Gaddafi, leiðtoga landsins, og eru það fyrstu myndirnar sem sést hafa af Gaddafi frá 11. maí.
Zuma sagði eftir fundinn, að Gaddafi væri tilbúinn til að fallast á tillögur Afríkusambandsins en þær fela í sér að lýst verði yfir vopnahléi, bæði af hálfu Líbíu og NATO. Þá hafi Gaddafi lagt áherslu á, að líbíska þjóðin fái að ákveða hvernig hún vill að málum sé skipað.