Hernaður í Líbíu fram í september

Frá Benghazi þar sem uppreisnarmenn í Líbíu eru með höfuðstöðvar.
Frá Benghazi þar sem uppreisnarmenn í Líbíu eru með höfuðstöðvar.

Atlantshafsbandalagið ákvað í dag að framlengja hernaðaraðgerðir í Líbíu um þrjá mánuði eða fram í lok september. Öflugar sprengingar kváðu við í Tripoli, höfuðborg Líbíu, í gærkvöldi og morgun.

Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóri NATO, sagði í dag að Norður-Atlantshafsráðið hefði í morgun samþykkt að framlengja hernaðaraðgerðirnar um 90 daga.

Sagði Rasmussen að stjórnvöld í Líbíu gætu af þessu ráðið, að vesturveldin séu staðráðin í því að vernda almenna borgara í landinu.

Fram kom í gær, að ágreiningur er innan íslensku ríkisstjórnarinnar um málið.  Össkur Skarhéðinsson, utanríkisráðherra, kynnti það í ríkisstjórn og utanríkismálanefnd í gær og lýsti þeirri afstöðu að hann  vilji ekki að Ísland standi í vegi fyrir frekari aðgerðum.

Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, sagðist hins vegar við Morgunblaðið hafa lýst andstöðu sinni við þessi áform og hann teldi að samsvarandi afstaða hafi komið fram hjá öðrum ráðherrum VG á fundi ríkisstjórnarinnar.

Líbísk stjórnvöld sögðu í morgun að 718 óbreyttir borgarar hefðu fallið í loftárásum NATO og 4067 særst, þar af 433 alvarlega. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert