Par var dæmt í lífstíðarfangelsi í mjög óhuggulegu dómsmáli í Kaliforníuríki í Bandaríkjunum í dag. Þau rændu 11 ára skólastúlku árið 1991, héldu henni fanginni og nauðguðu reglulega í nær tvo áratugi.
Málið hefur vakið mikinn óhug í Bandaríkjunum sem og víðar.
Hjónin heita Philip og Nancy Garrido. Philip fékk 431 ára dóm en Nancy var dæmd í lífstíðarfangelsi með möguleika á lausn eftir 36 ár. Ástæða þess að hún fékk mildari dóm en Philip var meðal annars sú að hún sagðist iðrast gjörða sinna og hún vissi að hún hefði gert illt.
Hjónin rændu stúlkunni, Jaycee Dugard, er hún var á leið í skólann í júní árið 1991. Í prísundinni sem við tók næstu tvo áratugina ól hún mannræningjanum Philip Garrido tvö börn. Er hann rændi Jaycee var hann á skilorði fyrir að nauðga annarri konu.
Móðir Jaycee las upp yfirlýsingu frá dóttur sinni í réttarsalnum í dag þar sem hún sagði m.a. að mannræningjarnir hefðu rænt sig lífinu. Bók um lífsreynslu hennar er væntanleg.