Alþjóða heilbrigðismálastofnunin (WHO) segir, að afbrigðið af kólígerlinum, sem valdið hefur banvænum sýkingum í norðurhluta Evrópu að undanförnu, hafi aldrei greinst áður í sjúklingum.
Þetta skýri hvers vegna sýkingin sé jafn hættuleg og raun beri vitni.
AP fréttastofan hefur eftir Hilde Kruse, sérfræðingi í matvælaöryggi hjá WHO, að ýmis einkenni bakteríunnar geri það að verkum að hún sé meira smitandi og framleiði meira eitur en þau afbrigði kólígerla sem finnast í þörmum fólks.
Til þessa hafa yfir 1500 manns sýkst af völdum bakteríunnar, þar á meðal 470 sem hafa þróað með sér sjaldgæfa nýrnabilun. Þá hafa 18 látið lífið, 17 í Þýskalandi og einn í Svíþjóð.
Enn er ekki vitað hvar sýkingin er upprunnin. Talið var fyrst að hana mætti rekja til spænskra agúrkna en rannsóknir sýndu að svo var ekki. Talið er þó ljóst, að fólk hafi sýkst eftir að hafa borðað hrátt grænmeti.