Ratko Mladic, fyrrverandi yfirmaður herafla Bosníu- Serba, kom fyrir stríðsglæpadómstól Sameinuðu þjóðanna í morgun. Hann segist vera afar veikur og ekki í ástandi til að þola réttarhöld. Þá þyrfti hann lengri tíma til að skilja ákærurnar.
„Ég er Ratko Mladic hershöfðingi,“ ávarpaði hann réttinn. „Ég er ákaflega veikur maður.“
Hann sagðist ekki vilja að dómarinn „læsi einn staf" í ákæruskjalinu. Alphons Orie, forseti dómsins, sinnti því ekki heldur las úrdrátt úr ákærunni. Þegar lestrinum var lokið spurði dómarinn Mladic um afstöðu hans til ákærunnar. Mladic svaraði, að hann ætlaði ekki að tjá sig um þessa „andstyggilegu sakir" sem á hann væri bornar.
Á Mladic eru bornar þungar sakir; hann er talinn bera ábyrgð á fjöldamorðunum í Srebrenica, þar sem 8000 múslímskir karlar og drengir voru myrtir og hið 44 mánaða langa umsátur um borgina Sarajevo, þar sem 10.000 manns létu lífið.
Mladic hafði verið eftirlýstur í 16 ár og fannst í Serbíu í síðustu viku. Hann var fluttur til Haag í Hollandi á þriðjudaginn til að koma fyrir dómstólinn, eftir að serbneskir dómarar höfðu úrskurðað um að hann væri nógu heilsuhraustur til þess.
Við dómstólinn í morgun var honum gerð grein fyrir ákæruatriðum og að hann hefði rétt á því að tjá sig ekki. Svari hann ekki ákæruatriðum í dag, fær hann 30 daga til þess. Geri hann það ekki á þeim tíma, verður honum gert að neita ákæruatriðum og í framhaldi af því verða réttarhöld.
Ekki liggur fyrir hvenær þau hefjast, en talið er að þau gætu tekið mörg ár.