Grænlendingar skoða nú hvað fór úrskeiðis þegar olíubíll á vegum íslenska verktakafyrirtækisins Ístaks sökk til botns í Paakitsoq sem liggur norður af Ilulissat.
Slysið átti sér stað fyrir tveimur vikum þegar bílnum var ekið yfir mjög þunnan ís sem gaf sig undan þunga bílsins. Um 1000 lítrar af olíu voru í bílnum svo það stefndi í umhverfisslys. Eitthvað magn af olíu náði að leka út í sjóinn.
Anthon Frederiksen, umhverfisráðherra Grænlands, segir slysið dæmi um mikið hugsunarleysi þar sem óeðlilegt sé að aka svo þungu ökutæki yfir ísinn á þessum árstíma.
Verið er að kanna hvort atburðurinn varði við lög en samkvæmt grænlensku fréttasíðunni Sermitsiaq hafa stjórnvöld ekki fengið neinar skýringar frá Ístak.