Klúbbur fyrir hlýðnar konur

Mynd úr myndasafni.
Mynd úr myndasafni. Kjartan Þorbjörnsson

Hópur múslímakvenna í Malasíu hefur skorið upp herör gegn hjónaskilnuðum og heimilisofbeldi. Að mati kvennanna er rótin að þessum vandamálum fyrst og fremst almenn óhlýðni kvenna og því hafa þær stofnað félag sem hefur það að markmiði að kenna konum að þóknast eiginmönnum sínum á ýmsa lund.

Talsmaður kvennanna, Maznah Taufik, segir að í félaginu verði konum kennt að gleðja eiginmenn sína. Það muni leiða til þess að þeir hegði sér betur og hlaupist síður á brott af heimilunum.

„Við biðlum til allra kvenna um að vera mönnum sínum undirgefnar. Þá fækkar ýmsum vandamálum í samfélagi okkar, eins og til dæmis framhjáhaldi, skilnuðum og heimilisofbeldi,“ sagði Taufik í samtali við AFP fréttastofuna.

„Í því að vera hlýðin kona felst ekki aðeins að hugsa um fæði og klæði eiginmannsins; hlýðin kona leitast við að skemmta bónda sínum á ýmsa lund og hún fer eftir fyrirmælum spúsa síns, eins og íslamstrú boðar.“

Meirihluta landsmanna í Malasíu eru múslímatrúar. Á árunum 2002-2006 tvöfaldaðist skilnaðartíðni í landinu og var aukningin talsvert meiri meðal múslíma en þeirra sem játa aðra trú.

Taufik segir það vera skyldu hvers eiginmanns að kenna konu sinni að vera hlýðin. „Sumar konur giftast einvörðungu sér til skemmtunar. En þær vita ekki hvaða skyldur felast í hjónabandinu. Bregðist þær þeirri frumskyldu sinni að skemmta eiginmanni sínum, þá leitar hann til annarra kvenna og þá er heimilið sundrað.“

Á stofnfundi samtakanna, sem haldinn verður á morgun, verða haldnar ræður og sýnikennsla verður í því hvernig kona þóknast eiginmanni sínu. Áætlað er að stofna samskonar félag í Jórdaníu í næsta mánuði.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert