Klúbbur fyrir hlýðnar konur

Mynd úr myndasafni.
Mynd úr myndasafni. Kjartan Þorbjörnsson

Hóp­ur mús­líma­kvenna í Malas­íu hef­ur skorið upp her­ör gegn hjóna­skilnuðum og heim­il­isof­beldi. Að mati kvenn­anna er rót­in að þess­um vanda­mál­um fyrst og fremst al­menn óhlýðni kvenna og því hafa þær stofnað fé­lag sem hef­ur það að mark­miði að kenna kon­um að þókn­ast eig­in­mönn­um sín­um á ýmsa lund.

Talsmaður kvenn­anna, Maznah Taufik, seg­ir að í fé­lag­inu verði kon­um kennt að gleðja eig­in­menn sína. Það muni leiða til þess að þeir hegði sér bet­ur og hlaup­ist síður á brott af heim­il­un­um.

„Við biðlum til allra kvenna um að vera mönn­um sín­um und­ir­gefn­ar. Þá fækk­ar ýms­um vanda­mál­um í sam­fé­lagi okk­ar, eins og til dæm­is fram­hjá­haldi, skilnuðum og heim­il­isof­beldi,“ sagði Taufik í sam­tali við AFP frétta­stof­una.

„Í því að vera hlýðin kona felst ekki aðeins að hugsa um fæði og klæði eig­in­manns­ins; hlýðin kona leit­ast við að skemmta bónda sín­um á ýmsa lund og hún fer eft­ir fyr­ir­mæl­um spúsa síns, eins og íslamstrú boðar.“

Meiri­hluta lands­manna í Malas­íu eru mús­líma­trú­ar. Á ár­un­um 2002-2006 tvö­faldaðist skilnaðartíðni í land­inu og var aukn­ing­in tals­vert meiri meðal mús­líma en þeirra sem játa aðra trú.

Taufik seg­ir það vera skyldu hvers eig­in­manns að kenna konu sinni að vera hlýðin. „Sum­ar kon­ur gift­ast ein­vörðungu sér til skemmt­un­ar. En þær vita ekki hvaða skyld­ur fel­ast í hjóna­band­inu. Bregðist þær þeirri frum­skyldu sinni að skemmta eig­in­manni sín­um, þá leit­ar hann til annarra kvenna og þá er heim­ilið sundrað.“

Á stofn­fundi sam­tak­anna, sem hald­inn verður á morg­un, verða haldn­ar ræður og sýni­kennsla verður í því hvernig kona þókn­ast eig­in­manni sínu. Áætlað er að stofna sams­kon­ar fé­lag í Jórdan­íu í næsta mánuði.


mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert
Loka