Forsætisráðherra Jemen, forseti landsins og forseti þingsins særðust í dag þegar sprengjum var varpað á mosku sem tilheyrir híbýlum forsetans, í norðurhluta höfuðborgarinnar Sanaa. Þeir voru þar við bænahald.
Fjórir þjóðvarðliðar létust í árásinni.
Meðlimir ættbálks, sem leiddur er af sjeiknum Sadiq al-Ahmar, hafa undanfarna daga barist við öryggissveitir landsins í Sanaa.
Yfirvöld kenna ættbálknum um að hafa ráðist að valdamönnunumog segja meðlimi hans hafa gengið of langt. Ekkert hefur þó fengist staðfest um hver ber ábyrgð á árásinni.
Árásin á moskuna fylgdi í kjölfar árásar á heimili sjeiksins Hamid al-Ahmar, sem er leiðtogi stærsta stjórnarandstöðuflokks landsins og bróðir Sadiq.
Einnig var skotið á háskólasvæðið í miðborg Sanaa, þar sem mótmælendur hafa haldið til frá því í lok janúar. Skothríð kvað við í Al-Hassaba hverfinu í Sanaa, þar sem Sadiq hefur bækistöðvar sínar og fregnir herma að höfuðstöðvar ríkisflugfélagsins Yemenia hafi verið brenndar til ösku, ásamt skrifstofum Suhail sjónvarpsstöðvarinnar sem rekin er af Sadiq.
Talið er að um 60 manns hafi látist í mótmælunum síðan á þriðjudaginn.
Fólkið mótmælir stjórn Ali Abdullah Saleh, forseta landsins, sem hefur verið við völd frá árinu 1978. Mótmælin hafa staðið yfir síðan í janúar.
Bandaríkjastjórn hyggst setja aukinn þrýsting á að hann fari frá völdum.
Um hádegisbilið hófust mótmæli í miðborg Sanaa, fólkið sýnir samstöðu með íbúum borgarinnar Taez, þar sem öryggissveitir brutu niður mótmæli fyrr í vikunni með þeim afleiðingum að 50 óbreyttir borgarar létu lífið.
Öryggisverðir í í Taez skjóta úr byssum sínum upp í loft til að halda ungmennum frá því að halda mótmælafund á Tahrir torgi sem er í miðborg Taez. Ungmennin eru þvinguð til að halda sig í litlum hópum í nærliggjandi moskum.