Bakverkir kosta Dani

Bakverkur hrjáir marga Dani með tilheyrandi kostnaði fyrir samfélagið.
Bakverkur hrjáir marga Dani með tilheyrandi kostnaði fyrir samfélagið.

Þriðji hver Dani þjáist af bakverkjum og samkvæmt upplýsingum frá Lýðheilsustöð Danmerkur er kostnaður samfélagsins vegna þess 17 milljarðar danskra króna á ári, sem er jafnvirði um 380 milljarða íslenskra króna. Gigtarsamtök þar í landi telja að fást megi við baksjúkdóma á ódýrari hátt.

Frá þessu segir á vefsíðu danska dagblaðsins Jyllands-Posten.

Þar segir Lene Witte, sem er formaður dönsku gigtarsamtakanna að þar sem baksjúkdómar séu svona algengir og kostnaðarsamir, þá ætti meðferð við þeim að vera markvissari en nú er.

Claus Rasmussen, sérfræðingur í baksjúkdómum við sjúkrahúsið í Vendsyssel segir að bakverkir séu ekkert nýtt fyrirbæri. 

„Fólki hefur alltaf verið illt í bakinu. En undanfarin 30 ár hafa útgjöld vegna þess aukist um 5000%. Það er ekki vegna þess að fólk sé veikara nú en áður, heldur er þetta menningarbundið. Núna eru bakverkir læknisfræðilegt vandamál og til þess að leysa það þarf tækni og dýrar meðferðir. Áður var þetta bara hluti af lífinu,“ segir Rasmussen.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert