Hlýðnar konur funda í Malasíu

Ein kvennanna í klúbbnum lýtur eiginmanni sínum.
Ein kvennanna í klúbbnum lýtur eiginmanni sínum. Reuters

Á stofnfundi klúbbs fyrir hlýðnar konur í Malasíu í dag voru meðlimir hvattir  til að haga sér að hætti portkvenna á milli rekkjuvoðanna. Að sögn forsvarsmanna samtakanna kemur það í veg fyrir hjónaskilnaði og heimilisofbeldi.

Klúbburinn var stofnaður að frumkvæði samtaka múslíma í Malasíu. Á fyrsta fundinum, sem haldinn var í dag, fengu konur ýmis ráð um hvernig þær ættu að fullnægja ýmsum þörfum eiginmanna sinna til að koma í veg fyrir að þeir hlypust á brott af heimilinu.

„Ímynd góðrar eiginkonu einkennist af prúðmennsku og háttvísi og að hugsa um börnin. En of lítil áhersla er lögð á að uppfylla kynferðislegar þarfir eiginmannsins. Fari hann fram á kynlíf, þá á eiginkonan að hlýða því,“ sagði varaformaður klúbbsins, Rohaya Mohamad í samtali við AFP fréttastofuna.

„Góð eiginkona á að vera eins og vændiskona í rúminu, “sagði Mohamad.

Nú þegar eru klúbbfélagar 800 talsins og að auki hafa um 200 konur úr nágrannalöndunum lýst yfir áhuga á þátttöku.

Klúbburinn hefur verið mikið gagnrýndur af ýmsum kvennasamtökum í Malasíu, sem segja það ósanngjarnt að konur séu einar látnar bera  ábyrgðin á heill og hamingju fjölskyldunnar.

„Á eftir hlýðni kemur oft undirgefni, sem getur leitt til heimilisofbeldis og nauðgana innan hjónabands,“ sagði Ivy Josiah, formaður hjálparsamtaka fyrir konur.„Það ætti frekar að leggja áherslu á jafnrétti.“


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert