Bandaríski herinn réðst á bækistöðvar al-Qaeda samtakanna í Pakistan í morgun. Níu al-Qaeda liðar féllu, þeirra á meðal er talinn vera Ilyas Kashmiri yfirmaður samtakanna í Pakistan, en þar bera þau nafnið Harakat-ul-Jihad al-Islam (HuJI).
Kashmiri er talinn hafa borið ábyrgð á fjölda hryðjuverka á Vesturlöndum, Indlandi og í Pakistan. Hann er ennfremur talinn hafa skipulagt víðtækar hryðjuverkaárásir á Bretland, Frakkland, Þýskaland og Bandaríkin, sem voru ekki framkvæmdar því upp komst um fyrirætlanirnar.
Bandaríkjastjórn hafði lagt fé honum til höfuðs, fimm milljónir dollara, en það er hæsta upphæð sem bjóða má fyrir eftirlýstan mann.
Sé það rétt, að niðurlögum Kashmiris hafi verið ráðið, þykir það mikilvægt skref í baráttunni við hryðjuverk.
Pakistönsk yfirvöld hafa staðfest árásina og að um hóp manna sem tengjast Ilyas Kashmiri hafi verið að ræða. Þau hafa ekki staðfest að hann hafi verið þar á meðal.