Sarah Palin, fyrrum varaforsetaframbjóðandi Repúblikanaflokksins og ríkisstjóri í Alaska þótti í dag sýna fram á slælega þekkingu á sögu Bandaríkjanna.
Í ræðu, sem Palin hélt í Boston í dag, sagði hún að bandaríska frelsishetjan Paul Revere, hefði varað Breta við fyrirhuguðum hernaðaraðgerðum Bandaríkjamanna í frelsisstríðinu á 18. öld.
Revere er reyndar þekktur fyrir að hafa varað Bandaríkjamenn við yfirvofandi árás Breta og er tilvitnunin „The British are coming“ við hann kennd.
Ekki leið á löngu uns netheimar loguðu með upptökum af Palin, er hún lét þessar rangfærslur út úr sér og segja stjórnmálaskýrendur að þarna hafi einn hennar helsti veikleiki komið í ljós, sem er fljótfærni og takmörkuð þekking á sagnfræði.
Þegar fréttamaður benti Palin á þessar rangfærslur brást hún hin versta við, neitaði því að hún hefði farið með rangt mál og sagðist hafa góða söguþekkingu. Að auki sagðist hún hafa verið fórnarlamb ágengs fréttamanns.
Palin fer nú mikinn á yfirreið sinni um nokkrar helstu borgir Bandaríkjanna. Ferð sína kallar hún „One Nation“ eða „Ein þjóð“. Spurð að því hvort ferðin væri undirbúningur fyrir hugsanlegt forsetaframboð hennar 2012. kvað hún nei við.