Dómstóll á Jótlandi í Danmörku dæmdi í dag 27 ára gamla konu í 3 mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að taka upp kynferðislegt samband við 13 ára dreng.
Konan, sem er búsett í Mors, hafði kynmök við drenginn í allt að 10 skipti á tveggja og hálfs mánaðar tímabili árið 2009.
Fram kom í dómnum, að konan taldi upphaflega að drengurinn væri 16-18 ára en hann sagði henni rétt til um aldur sinn eftir að samband þeirra hafði staðið yfir í um mánuð. Samt hélt konan áfram að hitta drenginn.
Á vef blaðsins NordJyske kemur fram, að drengurinn bjó um tíma heima hjá konunni með vitund foreldra hans.
Fjölskylda drengsins kærði konuna í lok ársins 2009 en málið kom ekki fyrir rétt fyrr en nú vegna þess að konan gekkst undir geðrannsókn. Við ákvörðun refsingar tók dómari m.a. tillit til þess, að drengurinn sagðist ekki hafa verið þvingaður til neins.
Konan sætti sig við dóminn. Hún þarf einnig að greiða drengnum, sem nú er 15 ára, 10 þúsund danskar krónur í bætur, jafnvirði um 220 þúsund króna.