Eftirlaun út yfir gröf og dauða

Margt er gamalt í Grikklandi.
Margt er gamalt í Grikklandi. Reuters

Gríska ríkið hefur greitt þúsundum Grikkja eftirlaun þótt viðkomandi séu löngu farnir yfir móðuna miklu. Vinnumálaráðherra landsins segir, að nú verði tekið hart á almannatryggingasvikum, sem kosta landið milljónir evra árlega. 

Reutersfréttastofan hefur eftir Louka Katseli, vinnumálaráðherra, að einnig sé verið að rannsaka hvers vegna hlutfallslega margir Grikkir séu komnir yfir 100 ára aldurinn og fái enn greidd ellilaun. 

Katseli sagði við blaðið Ta Nea, að rannsókn á tölvugögnum hafi leitt í ljós, að um 4500 fyrrum opinberir starfsmenn héldu áfram að fá eftirlaun greidd þótt þeir væru látnir. Fyrir þetta hafa grískir skattgreiðendur þurft að borga yfir 16 milljónir evra, 2,7 milljarða króna, á ári.  

Reuters segir, að skýrsluhald grískra stjórnvalda sé ekki sérlega skipulagt og Grikkir leiki það oft, að tilkynna ekki lát ættingja til þar til bærra stjórnvalda svo tryggingagreiðslur haldi áfram að berast.  

Gríska vinnumálaráðuneytið þarf að skera niður um það bil 8 milljarða evra á árunum 2012 til 2015 en það er eitt skilyrðanna sem sett voru til að Grikkir fengju efnahagsaðstoð frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Evrópusambandinu. 

Kaseli segir, að takist að koma í veg fyrir svik af þessu tagi þýði það, að ekki þurfi að skera niður fjárframlög til velferðarkerfisins.   

Um 9000 manns, yfir 100 ára, fá enn greiddan ellilífeyri frá gríska ríkinu. „Við erum nú að kanna hve margir þeirra eru enn á lífi," sagði Katseli. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka