Kínverskur stúdent, sem myrti konu til að koma í veg fyrir að hún myndi höfða skaðabótamál á hendur honum eftir að hann hafði ekið bifreið sinni á hana í október síðastliðnum, var tekinn af lífi í Kína í dag. Fréttastofa BBC hefur þetta eftir kínverskum ríkisfjölmiðlum.
Yao Jiaxin, sem var 21 árs, var sagður hafa stungið konuna til bana. Dómstólar í Kína höfðu sagt glæp hans andstyggilegan og mikil umræða spratt upp í kjölfarið um siðferðiskennd ungs fólks í Kína - hina svonefndu „ríku aðra kynslóð“ sem eru afkvæmi þeirra sem hafa notið góðs af gífurlegum hagvexti í Kína undanfarin ár.
Konan var á ferð á reiðhjóli þegar Jiaxin ók á hana en hún mun einungis hafa meiðst lítillega við áreksturinn. Óttasleginn um að hún myndi tilkynna ákeyrsluna til lögreglu brá hann á það ráð að stinga hana átta sinnum, sem leiddi til dauða hennar.
Hann gaf sig sjálfviljugur fram til lögreglu.