Morð í Hollandi, sem framið var árið 1946, hefur nú verið upplýst, 65 árum síðar, eftir að 96 ára gömul kona gaf sig fram og sagðist hafa framið það.
Felix Gulje, forstjóri byggingarfélags í Hollandi, var myrtur árið 1946. Málið vakti mikla athygli í landinu á sínum tíma og varð meðal annars að pólitísku deilumáli. Morðinginn fannst hins vegar ekki.
Í gær boðaði Henri Lenferink, bæjarstjóri í Leiden, til blaðamannafundar og sagði að kona hefði játað morðið fyrir sér. Sagðist hún hafa myrt Gulje á sínum tíma vegna þess að hún hélt, að hann hefði verið samverkamaður nasista meðan á síðari heimsstyrjöld stóð.
Lenferink sagðist hafa fengið bréf frá konunni, sem heitir Atie
Ridder-Visser, þann 1. janúar. Hann hefði síðan rætt tvívegis við hana og væri sannfærður um að hún segði satt.
Atie Visser segist hafa hringt dyrabjöllunni hjá Gulje 1. mars 1946. Kona hans kom til dyra en Atie Visser sagðist vera með bréf til manns hennar. Þegar hann kom fram skaut konan hann í brjóstið. Gulje lést af sárum sínum í sjúkrabíl á leið á sjúkrahús.
Visser var í andspyrnuhreyfingunni meðan á hernámi Þjóðverja í Hollandi stóð á árunum 1940-1945. Orðrómur var um, að Gulje starfaði með nasistum en fyrirtæki hans átti í reglulegum viðskiptum við Þjóðverja og nokkrir starfsmenn fyrirtækisins voru í samtökum sem studdu nasista.
Eftir stríðið var Gulje handtekinn og ákærður en síðan sýknaður. Eftir að hann var myrtur kom í ljós, að Gulje hafði, meðan á hernáminu stóð, reynt að aðstoða gyðinga við að flýja frá nasistum, veitt sumum húsaskjól og látið aðra fá peninga. Kaþólsk samtök, sem nasistar höfðu bannað að starfa, fengu einnig að halda fundi á heimili Guljes.
Eftir stríðið flutti Visser til Indónesíu og gifti sig þar. Hjónin fluttu aftur til Evrópu nokkrum árum síðar og bjuggu bæði í Hollandi og á Spáni.
Lenferink sagði, að lögreglu hefði aldrei grunað að Visser hefði framið morðið. Hann sagði að konan hefði nýlega hitt tvö barnabörn Gujles til að útskýra hvers vegna hún myrti afa þeirra.
Lenferink sagði að Ridder-Visser verði ekki ákærð fyrir morðið þótt morðmál fyrnist ekki samkvæmt hollenskum lögum. Hins vegar yrði að fordæma hana harðlega.
Bæjarstjórinn bað fréttamenn hins vegar um að láta konuna í friði og sagði að hún væri heilsuveil sem heyrði illa, væri fötluð og þyrfti á aðstoð að halda. .