Alþjóðakjarnorkumálastofnunin (IAEA) hefur ákveðið að tilkynna Sýrlendinga til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna vegna meintrar leynilegrar kjarnorkuáætlunar þeirra. Hermt er að Sýrlendingar hafi byggt kjarnorkuver án þess að tilkynna það.
Sýrlendingar halda því fram að svæðið sé hersvæði sem var eyðilagt af Ísraelsmönnum árið 2007. Breska ríkisútvarpið BBC segir frá þessu.
Stjórn IAEA kaus um tillöguna sem Bandaríkjamenn og bandamenn þeirra lögðu fram í dag í höfuðstöðvum stofnunarinnar í Vín. Voru 17 lönd af 35 samþykk því að vísa málinu til öryggisráðsins. Sex lönd kusu gegn því, þar á meðal Rússland og Kína en ellefu lönd sátu hjá.
Sýrlendingar eiga aðild að sáttmála gegn útbreiðslu kjarnorku og gefur það þeim rétt til þess að auðga kjarnorkueldsneyti í borgaralegum tilgangi undir eftirliti IAEA.
Síðast tilkynnti IAEA Írani til öryggisráðsins í febrúar 2006.