Japanski skáldsagnahöfundurinn Haruki Murakami gagnrýndi kjarnorkustefnu föðurlands síns í þakkarræðu sinni þegar hann hlaut alþjóðlegu Katalóníuverðlaunin í Barcelona á Spáni í gær.
Murakami sagði að japanska þjóðin hefði upplifað einu kjarnorkusprengjunnar sem fallið hefðu á borgir í síðari-heimsstyrjöld og hefði í kjölfarið átt að hafna hvers kyns kjarnorku.
Ræðan í gær var flutt þremur mánuðum eftir að flóðbylgja olli umfangsmesta kjarnorkuslysi sem orðið hefur frá Tjernóbyl-slysinu árið 1986.
„Slysið í Fukushima var næstmesti skaðinn sem Japan hefur orðið fyrir af völdum kjarnorku. Í þetta skipti var sprengju hins vegar ekki varpað á okkur heldur var þetta slys sem við hefðum getað komið í veg fyrir.“
Skáldsögur Murakamis, sem eitt sinn rak jazz-bar, hafa notið alþjóðlegrar hylli og hafa verið þýddar á fjöldamörg tungumál; til að mynda Norwegian Wood og Kafka on the Shore.