Fjögur ár eru síðan Hamas, flokkur íslamista, komst til valda á Gaza. Nú eru keppinautarnir Hamas og Fatah að leita sátta.
Barist var á götum Gaza borgar fyrir fjórum árum og tókust þar á stríðsmenn Fatah og Hamas. Þess er minnst nú að fjögur ár eru liðin frá því að Hamas barðist til valda á Gaza svæðinu eftir snarpa og blóðuga borgarastyrjöld.Ágreiningur milli fylkinganna tveggja hafði kraumað allt frá því að Hamas sigraði í kosningum á svæðinu í janúar 2006. Átökin brutust út í júní 2007, barist var á götum úti og féllu hundruðir manna. Eftir því sem hinum föllnu fjölgaði sökuðu báðar fylkingar hina um grimmdarverk.
Særðir borgarar voru teknir af lífi á leiðinni á sjúkrahús og öðrum var rænt á heimilum sínum og þeir drepnir. Eftir að Hamas tók við völdum hafa fylkingarnar sakað hvora aðra um að hafa fjölda aðgerðarsinna í haldi.
Mörgum kom á óvart að þessar andstæðu fylkingar skyldu undirrita samkomulag um sameiningu í Kaíró í apríl síðastliðnum. Nú er talið að átökin kunni að vera að baki. Hamas, sem hefur eyðingu Ísraels á stefnuskrá sinni, kveðst ætla að samþykkja stofnun palestínsks ríkis við hliðina á Ísrael sem „millibils lausn“.
Bandaríkjamenn og Ísraelar hafa tekið þessari þróun dauflega. En eftir er að koma í ljós hvað íbúum Gaza finnst.