Yfirborð árinnar Lågen í Guðbrandsdal er nú tekið að sjatna. Flóð í ánni undanfarna daga hefur valdið miklum skemmdum og vandræðum. Per Solberg, aðgerðastjóri hjá lögreglunni í Guðbrandsdal, sagði að svo virtist sem það versta væri að baki.
Fréttavefur Aftenposten greinir frá því að brúnni yfir ána Lågen hjá Vinstra hafi verið lokað í gærkvöldi en þar hafði áin grafið burt mikinn jarðveg. Unnið er að því að kanna umfang skemmdanna.
Um 200 manns þurftu að yfirgefa heimili sín í Guðbrandsdal undanfarna daga vegna flóðanna. Vonast er til að fólkið geti fljótlega snúið aftur heim. Fundur er ráðgerður klukkan 14.00 í dag, að norskum tíma, þar sem ákveðið verður hvort fólk fær að fara aftur heim til sín.
Norska vegagerðin á eftir að kanna skemmdir sem orðið hafa á E6 hraðbrautinni í Guðbrandsdal vegna flóðanna. Unnið hefur verið að byggingu nýrrar E6 hraðbrautar í gegnum dalinn. Fréttavefurinn ABC Nyheter segir að nýi vegurinn hafi farið undir flóðvatnið á löngum köflum og sé því augljóslega ekki byggður nógu hátt upp.