Hættir vegna erfiðleika norskra Evrópusinna

Höfuðstöðvar Evrópusambandsins í Brussel.
Höfuðstöðvar Evrópusambandsins í Brussel. AP

Framkvæmdastjóri norsku Evrópusamtakanna, sem beita sér fyrir inngöngu Noregs í Evrópusambandið, staðfesti við norska fjölmiðla fyrir helgi að hann hygðist segja starfi sínu lausu eftir að hafa gegnt því í einungis 18 mánuði. Viðurkenndi hann að þar spilaði inn í erfið staða stuðningsmanna norskrar Evrópusambandsaðildar.

Í samtali við norska dagblaðið Dagens Næringsliv sagði framkvæmdastjórinn fráfarandi, Trygve G. Nordby, að sífellt verði erfiðara að tala fyrir aðild að ESB í Noregi og tryggja málstaðnum stuðning. Ekki bætti úr skák að enginn stjórnmálaflokkanna í landinu vildi setja málið á dagskrá. Jafnvel hörðustu stuðningsmenn aðildar væru lítt áhugasamir um það.

Norðmenn hafa tvisvar hafnað aðild að ESB og forvera þess í þjóðaratkvæðagreiðslu, fyrst 1972 og síðan 1994. Frá árinu 2005 hafa allar skoðanakannanir gerðar í Noregi sýnt afgerandi meirihluta gegn aðild að sambandinu. Er það ekki síst rakið til yfirstandandi efnahagserfiðleika innan ESB og segir í umfjöllun blaðsins að margir Norðmenn séu fegnir að standa utan sambandsins vegna þeirra.

Formaður norsku Evrópusamtakanna, Paal Frisvold, segir að eftirsjá sé í Nordby en að hann virði ákvörðun hans. Hann sagði að samtökunum hefði orðið nokkuð ágengt í baráttu sinni en viðurkenndi að erfiðlega hefði gengið að afla fjármagns til starfseminnar frá einstaklingum og fyrirtækjum í Noregi. Ástandið innan ESB hjálpaði ekki í þeim efnum.

Nordby hyggst starfa áfram fyrir Evrópusamtökin sem ráðgjafi og mun ennfremur sinna starfi framkvæmdastjóra þar til annar hefur verið ráðinn í hans stað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert