Rétt eftir miðnætti að spænskum tíma söfnuðust þúsundir mótmælenda saman í miðborg Madridar. Mótmælendurnir, sem kalla sig „Hina sárreiðu“ voru á öllum aldri og komu margir saman á Sol torginu. Frá 15. maí hafa þeir mótmælt bágu ástandi í efnahagslífinu.
Þegar klukkan var rétt rúmlega tólf á miðnætti gengu mótmælendur friðsamlega eftir götunni Gran Via í áttina að þinghúsinu. Margir hrópuðu slagorð þar sem bankar og stjórnmálamenn voru gagnrýndir.
Mótmælendurnir settust svo fyrir framan þinghúsið með hendur upp í loft. Lögreglan var þá búin að girða húsið af.
Mótmælin hafa breiðst út á landsvísu.