Ungmenni réðust á bílalest Abdullah annars Jórdaníukonungs með grjótkasti í dag. Konungurinn er í heimsókn í borginni Tafileh í suðurhluta landsins. Voru mótmælendurnir handteknir en yfirvöld neituðu í fyrstu að atvikið hefði átt sér stað.
Var það hópur manna á þrítugs- og fertugsaldri sem köstuðu steinum og flöskum í bílalestina sem varð að fara aðra leið en til stóð. Enginn slasaðist þó í árásinni.
Talsmaður ríkisstjórnarinnar neitaði í fyrstu að ráðist hefði verið á bílalestina og hafði ríkisfréttastofan Petra eftir honum að heimsóknin til Tafileh hefði gengið vel.
„Eina sem gerðist var að það kom til rifrildis á milli lögreglu og fólks sem vildi heilsa upp á konunginn,“ sagði talsmaðurinn.
Mótmæli hafa staðið yfir í borginni um nokkurra vikna skeið og hefur fólk krafist umbóta og raunverulegra aðgerða gegn spillingu.
Í gær hét konungurinn því að koma til móts við kröfur um pólitískar umbætur í landinu og að ríkisstjórnir með meirihluta á bak við sig verði héðan í frá myndaðar í kjölfar almennra þingkosninga.