Þýsk stjórnvöld hafa viðurkennt opinberlega að uppreisnarmennirnir í Líbíu séu réttmæt yfirvöld í landinu. Enn er barist í landinu og Múammar Gaddafi Líbíuleiðtogi hefur ítrekað að hann muni ekki víkja.
Guido Westerwelle, utanríkisráðherra Þýskalands, átti fund með leiðtogum uppreisnarmanna í Benghazi í Líbíu í dag. Þar viðurkenndi hann Líbíska þjóðarráðið sem réttmætan fulltrúar þjóðarinnar.
„Við viljum að Líbía verði frjáls og að þar ríki friður og lýðræði verði í hávegum haft án Gaddafis,“ sagði Westerwelle.
Þjóðverjar eru 13 þjóðin sem viðurkennir Líbíska þjóðarráðið með þessum hætti. Þeir fylgja í fótspor Ástrala, Breta, Frakka, Gambíu, Ítalíu, Jórdaníu, Möltu, Katar, Senegel, Spánar, Sameinuðu arabísku furstadæmanna og Bandaríkjanna.