Fjármálaráðherrar evruríkjanna komu sér ekki saman um aðgerðir til að mæta skuldavanda Grikklands á fundi í Brussel í dag. Landið er sem kunnugt er á barmi gjaldþrots og er boltinn sagður vera hjá Þjóðverjum og Frökkum, tveimur stærstu hagkerfum evrusvæðisins.
Tíminn er naumur því horft er til 20. júní sem lokafrests til að taka ákvörðun um 2. hluta neyðaraðstoðar til handa Grikkjum.
Skuldabréfaálag á Portúgal, Írland og Grikkland hefur verið hækkað í kjölfar frétta um að matsfyrirtækið Standard & Poor's geri ráð fyrir að minnsta kosti einu greiðslufalli hjá Grikkjum fyrir árslok 2013.
Þjóðverjar njóta stuðnings Hollendinga í þeirri tillögu sinni að bankar, lífeyrissjóðir og tryggingafyrirtæki sem eigi grískar skuldir skipti út skuldabréfunum fyrir endurnýjuð bréf sem gilda sjó árum lengur.
Slíkt skref yrði vitaskuld aðeins skammtímalausn en hún er talin munu gefa Grikkjum einhverja möguleika á að greiða niður eitthvað af hátt í 55.000 milljarða króna ríkisskuldum sínum.
Til að setja þær í íslenskt samhengi jafngildir upphæðin þjóðarframleiðslu á Íslandi í tæp 37 ár sé miðað við 1.500 milljarða króna þjóðarframleiðslu á Íslandi árið 2010.
Forystumenn Evrópska seðlabankans, Framkvæmdastjórnar ESB og Frakklands vilja hins vegar fara mildari leið við úrvinnslu skuldakreppunnar af ótta við að tillaga Þjóðverja smiti út frá sér. Er þá m.a. horft til þeirrar tortryggni matsfyrirtækja gagnvart þýsku leiðinni, að hún sendi þau skilaboð til markaða að Grikkir ráði ekki við skuldir sínar. Það geti aftur leitt til verðhruns á grískum skuldabréfum.