Ósamstaða um Grikklandsaðstoð

Mótmælendur koma saman fyrir utan Grande Bretagne-hótelið, sem álitið er …
Mótmælendur koma saman fyrir utan Grande Bretagne-hótelið, sem álitið er tákn munaðar, í Aþenu til að mótmæla fyrirhuguðum niðurskurði í ríkisútgjöldum. Reuters

Fjár­málaráðherr­ar evru­ríkj­anna komu sér ekki sam­an um aðgerðir til að mæta skulda­vanda Grikk­lands á fundi í Brus­sel í dag. Landið er sem kunn­ugt er á barmi gjaldþrots og er bolt­inn sagður vera hjá Þjóðverj­um og Frökk­um, tveim­ur stærstu hag­kerf­um evru­svæðis­ins.

Tím­inn er naum­ur því horft er til 20. júní sem lokafrests til að taka ákvörðun um 2. hluta neyðaraðstoðar til handa Grikkj­um.

Skulda­bréfa­álag á Portúgal, Írland og Grikk­land hef­ur verið hækkað í kjöl­far frétta um að mats­fyr­ir­tækið Stand­ard & Poor's geri ráð fyr­ir að minnsta kosti einu greiðslu­falli hjá Grikkj­um fyr­ir árs­lok 2013.

Þjóðverj­ar njóta stuðnings Hol­lend­inga í þeirri til­lögu sinni að bank­ar, líf­eyr­is­sjóðir og trygg­inga­fyr­ir­tæki sem eigi grísk­ar skuld­ir skipti út skulda­bréf­un­um fyr­ir end­ur­nýjuð bréf sem gilda sjó árum leng­ur.

Slíkt skref yrði vita­skuld aðeins skamm­tíma­lausn en hún er tal­in munu gefa Grikkj­um ein­hverja mögu­leika á að greiða niður eitt­hvað af hátt í 55.000 millj­arða króna rík­is­skuld­um sín­um.

Til að setja þær í ís­lenskt sam­hengi jafn­gild­ir upp­hæðin þjóðarfram­leiðslu á Íslandi í tæp 37 ár sé miðað við 1.500 millj­arða króna þjóðarfram­leiðslu á Íslandi árið 2010.

For­ystu­menn Evr­ópska seðlabank­ans, Fram­kvæmda­stjórn­ar ESB og Frakk­lands vilja hins veg­ar fara mild­ari leið við úr­vinnslu skuldakrepp­unn­ar af ótta við að til­laga Þjóðverja smiti út frá sér. Er þá m.a. horft til þeirr­ar tor­tryggni mats­fyr­ir­tækja gagn­vart þýsku leiðinni, að hún sendi þau skila­boð til markaða að Grikk­ir ráði ekki við skuld­ir sín­ar. Það geti aft­ur leitt til verðhruns á grísk­um skulda­bréf­um. 

Útsýni yfir Akrópólishæð, Aþenu.
Útsýni yfir Akrópólis­hæð, Aþenu. Krist­inn Ingvars­son
mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert