Einn af þekktustu hagfræðingum heims, Nouriel Roubini, segir í grein í Financial Times í gær að mistekist hafi að leysa vandann vegna mismunandi efnahagsgetu og samkeppnishæfni aðildarríkja evrusvæðisins. Að óbreyttu stefni nú í að að evrusamstarfið leysist upp.
Roubini, sem er hagfræðiprófessor í New York, er m.a. frægur fyrir að hafa spáð rétt um fjármálakreppuna 2008. Í umfjöllun um grein hans í Morgunblaðinu í dag segir hann rætt um þrjár leiðir út úr evruvandanum.
Í fyrsta lagi að láta gengi evrunnar falla til að auka samkeppnishæfnina í jaðarríkjunum en harðlínustefna evrópska seðlabankans bendi ekki til að það sé raunhæf leið. Í öðru lagi að auka framleiðni og halda launum niðri en það verði of seinlegt, hafi t.d. tekið Þjóðverja heilan áratug. Loks sé nefnd verðhjöðnun en hún valdi samdrætti. Argentínumenn hafi reynt þessa aðferð í þrjú ár en loks gefist upp og hætt að borga af skuldum sínum.
„Ef við gefum okkur því að þessar þrjár lausnir séu ólíklegar er í raun aðeins eftir ein leið til að auka samkeppnishæfni og hagvöxt í jaðarríkjunum: yfirgefa evruna, taka aftur upp þjóðargjaldmiðilinn og ná þannig fram geysimikilli gengisfellingu, bæði á nafnverði og í reynd,“ segir Roubini.