Þúsundir Grikkja mótmæla nú fyrir framan gríska þinghúsið tilraunum stjórnvalda til þess að ná pólitískri samstöðu um frekari aðhaldsaðgerðir í efnahagsmálum Grikklands. Þá hófst ennfremur allsherjarverkfall í landinu í dag.
Gríska ríkisstjórnin, undir forystu forsætisráðherrans George Papandreou, verður að koma í gegnum þingið nýrri fimm ára efnahagsáætlun, þar sem kveðið er á um skattahækkanir, niðurskurð og sölu ríkiseigna, til þess að fá áfram aðstoð frá Evrópusambandinu og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og forðast þannig greiðsluþrot.
Papandreou stendur þó ekki aðeins frammi fyrir mótmælum almennings og andstöðu við efnahagsaðgerðirnar frá stjórnarandstöðu íhaldsmanna sem hafa nú náð forskoti á sósíalistaflokk hans í skoðanakönnunum heldur einnig uppreisn í röðum hans eigin þingmanna gegn aðgerðunum.