Bandaríkjamenn sögðu í dag arftaka Osama Bin Laden í starfi, Ayman al-Zawahiri, ekki annað en föla eftirhermu af forvera sínum og vöruðu hann jafnframt við því að hans biðu án vafa sömu örlög og Bin Laden hlaut.
Yfirvöld í Bandaríkjunum drógu jafnframt upp á þá mynd af al-Zawahiri að hann væri „hægindastóls-hershöfðingi“ sem hefði hvorki reynslu af bardögum né útgeislun og leiðtogahæfileika. Ennfremur væri hann umdeildur og gæti skaðað Al-Kaída.
Mike Mullen, aðmíráll í bandaríska hernum, sagði Zawahiri að búa sig undir sömu meðferð og Bin Laden fékk, sem var drepinn af bandarískum sérsveitarmönnum 2. maí síðastliðinn.
„Við leituðum að Bin Laden í því augnamiði að drepa hann og það tókst. Við munum án nokkurs vafa leita að sömu niðurstöðu með Zawahiri,“ sagði Mullen í dag.
Robert Gates, varnarmálaráðherra, steig varlegar til jarðar og sagði að útnefningu al-Zawahiri ætti að líta á sem áminningu um að ennþá stafaði ógn af Al-Kaída.