Tíu þingmenn í fulltrúadeild Bandaríkjaþings hafa kært Barack Obama, Bandaríkjaforseta, þar sem þeir telja að hann hafi farið út fyrir vandsvið sitt með því að heimila aðgerðir Bandaríkjahers í Líbíu.
Þingmennirnir, fjórir demókratar og sex repúblikanar, segja að þeir vilji með þessu stuðla að því að valdaójafnvægi sem sé til staðar í Washington, varðandi það hver hafi heimild til þess að senda Bandaríkjamenn í stríð, verði leiðrétt. Krafa þeirra er að dómstólar úrskurði að þátttaka Bandaríkjamanna í aðgerðum í Líbíu séu ólögmætar og þeim verði að hætta.
„Þeir hafa eytt 750 milljónum dollara í þetta stríð í Líbíu. Við segjum almenningi í Bandaríkjunum að þetta sé ekki stríð. Við getum ekki gert lítið úr þessu. Ef þetta lítur út eins og stríð þá er þetta stríð,“ segir Dennis Kucinich, þingmaður demókrata og einn þeirra þingmanna sem kært hafa Obama.