Atlantshafsbandalagið, NATO, sagðist í kvöld bera ábyrgð á því að óbreyttir borgarar létu lífið í sprengjuárás í Tripoli, höfuðborg Líbíu, í morgun. Sagði bandalagið að svo virtist sem flugskeyti hafi misst marks vegna tæknibilunar.
„NATO harmar manntjón meðal óbreyttra borgara," sagði Charles Bouchard, yfirmaður hernaðaraðgerða í Líbíu.
Bouchard sagði, að vísbeindingar væru um, að bilun í miðunarkerfi hafi valdið þessu.
Líbískir embættismenn sýndu vestrænum blaðamönnum fimm lík, þar á meðal tvö smábörn, og sögðu alls hefðu 9 óbreyttir borgarar látið lífið í árásinni. Þá hafi 18 manns særst.