Héraðsdómur í Hjørring í Danmörku dæmdi í dag svonefnda Brønderslev-foreldra til fangelsisvistar fyrir að misþyrma börnum sínum og vanrækja þau. Maðurinn var dæmdur til ótímabundnar fangelsisvistar en konan í 4 ára fangelsi.
Harry Antoft Larsen, 41 árs, var meðal annars fundinn sekur um að hafa nauðgað bæði dóttur sinni og stjúpdóttur. Hann var dæmdur til að greiða báðum stúlkunum 100 þúsund danskar krónur í bætur, jafnvirði um 2,2 milljónir íslenskra króna.
Larsen og kona hans, Tina Jensen, 37 ára, voru fundin sek um misþyrmingar og vanrækslu en þau eiga samtals 10 börn. Þau hjón voru sakfelld fyrir að hafa vanrækt skyldur sínar gagnvart börnunum, ekki gætt þess að þau fengju nóg að borða, hirtu sig og klæddu.
Þá voru þau bæði fundin sek um að hafa beitt börnin ofbeldi. Faðirinn var sýknaður af ákæru fyrir að hafa neytt eitt barn til að drekka sjóðheita tómatsúpu þar sem ekki lá ljóst fyrir hvað gerðist. Hann var hins vegar fundinn sekur um að hafa látið elstu dóttur sína drekka hundahland og borða dýraúrgang.
Maðurinn var sýknaður af ákæru fyrir að hafa neytt elstu dótturina til að hafa kynmök við hest en var sakfelldur fyrir að hafa neytt hana til að grafa eigin gröf og til að moka snjó klæðlitla, með þeim afleiðingum að hana kól á sjö tám. Þá voru hjónin sakfelld fyrir að hafa lokað stúlkuna inni í köldu herbergi í langan tíma.
Fjölskyldan bjó í smábænum Serritslev í sveitarfélaginu Brønderslev á Norður-Jótlandi. Félagsmálayfirvöld hafa verið harðlega gagnrýnd fyrir að hafa lítið aðhafst í málefnum fjölskyldunnar.