Aðstoðarfjármálaráðherra Bretlands, Mark Hoban, viðurkenndi í umræðum í breska þinginu síðastliðinn mánudag að fjármálaráðuneytið væri að undirbúa sig fyrir það að evrusvæðið kunni að sundrast. Sagðist Hoban annars stöðu sinnar vegna ekki vilja vera með of miklar vangaveltur um það hvað kynni eða kynni ekki að gerast í þeim efnum. Frá þessu var greint á fréttavefnum Euobserver.com í gær.
Um mjög heitar umræður var að ræða þar sem bæði þingmenn Íhaldsflokksins, sem aðild á að ríkisstjórn Bretlands, og Verkamannaflokksins spurðu ráðherrann spjörunum úr hvaða afleiðingar efnahagsvandræði Grikkja kynnu að hafa á hagsmuni Breta.
„Í stað þess að fela okkur á bak við þægilegt orðalag og innantóm orð um að við ættum ekki að vera með vangaveltur um málið ættum við að viðurkenna að þetta evrusvæði geti ekki lifað af. Þar sem evran eins og við þekkjum hana mun hrynja, er þá ekki betra að það gangi hratt fyrir sig en að hún deyji hægum dauðdaga?“ sagði Jack Straw, fyrrum utanríkisráðherra Breta og áhrifamaður innan Verkamannaflokksins.
Nýverið var greint frá því í fjölmiðlum að breskir bankar hafi flutt milljarði punda af evrusvæðinu af ótta við að ný efnahagskreppa sé í aðsigi á svæðinu.
Breskir bankar flýja evru-svæðið