Ef ekki finnst lausn á skuldakreppu Grikklands getur hún ógnað stöðugleika fjármálamarkaða um allan heim. Þetta sagði Ben Bernanke, seðlabankastjóri Bandaríkjanna, á fundi með fréttamönnum í Washington í dag.
Bernanke sagði bandaríska seðlabankann fylgjast mjög gaumgæfilega með hvernig mál þróuðust í Grikklandi og staðan væri mjög erfið.
„Ef ekki tekst að leysa úr þessu ástandi getur það ógnað fjármálakerfum Evrópu, alþjóðlegu fjármálalífi og pólitískri samstöðu í Evrópu,“ sagði Bernanke.
Strax í kjölfar stuðningsyfirlýsingar gríska þingsins við ríkisstjórn landsins hófust grísk stjórnvöld handa í morgun við aðgerðir í samræmi við kröfur ESB og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um niðurskurð ríkisútgjalda. Aðgerðunum er ætlað að forða evruríkjum frá miklum skuldavanda.