„Það er engin önnur leið“

Samhliða því sem forystumenn Evrópusambandsins óskuðu George Papandreou, forsætisráðherra Grikklands, til hamingju með að hafa staðist vantraust í gríska þinginu lögðu þeir áherslu á að komið yrði í gegn þeim hörðu aðhaldsaðgerðum í landinu sem settar hafa verið sem skilyrði fyrir áframhaldandi aðstoð sambandsins og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Mikil mótmæli hafa verið í Grikklandi undanfarna daga og vikur gegn þessum aðgerðum og stjórnarandstaðan í landinu hefur að sama skapi beitt sér gegn því að þær nái fram að ganga. En talsmenn Evrópusambandsins hafa lagt áherslu á að önnur leið sé ekki í boði fyrir Grikki.

„Það er engin önnur leið. Við erum með áætlun, nú þarf að framkvæma hana, það er tímabært að gera það. Það er engin önnur leið. Það er engin varaáætlun,“ sagði Pia Ahrenkilde-Hansen, talsmaður framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins við blaðamenn í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert