Uppreisnarmenn í Líbíu reikna með því að fá tilboð frá einræðisherranum Muammar Gaddafi „mjög bráðlega“ sem gæti bundið enda á stríðið sem nú hefur geisað í landinu í fjóra mánuði. Þetta segir háttsettur maður í liði uppreisnarmanna.
Abdel Hafiz Ghoga, sem er varaformaður National Transitional Council, segir að milligöngumenn hafi gefið í skyn að tilboð frá Gaddafi væri í smíðum, og gáfu þannig örlitla vonarglætu um að blóðbaðinu í landinu gæti nú farið að linna.
„Við búumst við tilboði innan skamms. Hann getur ekki andað," segir Ghoga. „Við viljum vernda líf Líbíumanna og þess vegna viljum við ljúka stríðinu sem fyrst. Við höfum alltaf gefið honum svigrúm til þess að fara frá völdum," segir hann.
Ghoga hefur heimildir sínar frá heimildarmönnum í Suður-Afríku og í Frakklandi, en uppreisnarmenn eru ekki í neinum beinum samskiptum við Gaddafi. ,,Þetta eru þau lönd sem stjórn Gaddafis hefur valið til að sýna okkur tilboðið, en það hefur ekki borist enn.
„Við munum skoða það vandlega,“ segir Ghoga, en leggur líka áherslu á að það verður ekkert samkomulag, nema það feli í sér að Gaddafi og fjölskylda hans öll hætti í stjórnmálum og fari frá völdum.