Ábending frá íslenskri konu leiddi til þess að glæpaforinginn James „Whitey“ Bulger var loks handsamaður í vikunni, að því er fram kemur í bandarískum fjölmiðlum.
Fram kemur í dagblaðinu Boston Globe að lögreglumaður hafi greint frá þessu í gær. Hann sagði að íslenska konan hefði hitt Bulger og Catherine Greig, sambýliskonu hans, í Santa Monica í Kaliforníu, þar sem hún er búsett.
Hún hefði síðar gert lögreglu viðvart eftir að hún sá frétt á CNN þar sem fjallað hefði verið um nýja auglýsingaherferð bandarísku alríkislögreglunnar, þar sem kastljósinu hefði verið beint að Greig.
Bulger mætti fyrir dómara í heimabæ sínum í Boston í gær en hann er sakaður um að hafa framið 19 morð. Hann er jafnframt sakaður um að stjórna Winter Hill glæpagenginu í Boston á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar.
Hann var lengi á lista FBI yfir 10 eftirlýstustu einstaklingana og var hann 16 ár á flótta.