Stjórnvöld í Kína hafa sleppt kínverska mannréttindafrömuðinum Hu Jia að sögn eiginkonu hans, Zeng Jingyan. Hún segir að Hu, sem er 37 ára gamall, sé nú með fjölskyldu sinni í Peking.
Hann sat í fangelsi í þrjú og hálft ár fyrir undirróður. Afplánuninni átti að ljúka á morgun.
Hu hefur verið mjög gagnrýninn á kínversk stjórnvöld og vakið athygli umheimsins á mannréttindabrotum í heimalandinu. Hann hefur lengi barist fyrir ýmsum málum, m.a. umhverfismálum, mannréttindum, trúfrelsi og réttindum HIV-smitaðra einstaklinga.
Ákvörðunin kemur í kjölfar heimsóknar Wen Jiabao, forsætisráðherra Kína, til Evrópu. Þá var kínverska listamanninum Ai Weiwei sleppt úr haldi sl. miðvikudag.