Samtökin Lulz Security, sem hafa staðið fyrir nokkrum árásum á vefsíður þekktra fyrirtækja og stofnana undanfarna tvo mánuði, hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem fram kemur að samtökin verði leyst upp.
Lulz Security greindi frá þessu á Twitter síðu sinni en gefur ekki upp neina ástæðu. Þar segir hins vegar að skipulögð 50 daga skemmtisigling hafi runnið sitt skeið.
Þau gerðu m.a. árásir á vefsíður fyrirtækjanna Sony og Nintendo og á heimasíður stofnana á borð við bandarísku leyniþjónustuna og bandarísku öldungadeildarinnar.
Samtökin birta nokkur skjöl með yfirlýsingunni sem eins konar kveðjugjöf, m.a. viðkvæmar upplýsingar frá lögreglunni í Arizona og fjarskiptafyrirtækinu AT&T í Bandaríkjunum.
Lulz er netslangur fyrir hlátur, og stendur nafn hópsins því fyrir hlægilegt öryggi.