Michele Bachmann, þingmaður Repúblikanaflokksins, tilkynnti í dag með formlegum hætti að hún muni bjóða sig fram til embættis forseta Bandaríkjanna. Hún segir að Bandaríkin hafi ekki efni á fjórum árum til viðbótar þar sem Barack Obama sé við stjórnvölinn.
Bachmann er menntaður skattalögfræðingur frá Iowa og nýtur hún mikil stuðnings meðal hinnar svokölluðu teboðshreyfingar repúblikana. Hún er hávær gagnrýnandi núverandi ríkisstjórnarinnar.
„Við höfum ekki efni á misheppnaðri utanríkisstefnu í fjögur ár til viðbótar með forseta, sem leiðir á bak við tjöldin og stendur ekki með vinaþjóðum okkar, eins og Ísrael [...] og stendur ekki í hárinu á óvinum okkar. Við höfum ekki efni á fjórum árum til viðbótar með Barack Obama,“ sagði hún.