Norður-Kórea á í erfiðleikum með að brauðfæða borgara sína. Í myndbandi sem lekið var út úr einræðisríkinu sjást munaðarlaus börn betla um mat á götum úti og hermenn kvarta undan vannæringu. Áður hafði her landsins forgang um mat.
Var myndbandið birt á ástralskri sjónvarpsstöð og var það sagt hafa verið tekið af rannsóknarblaðamanni frá Norður-Kóreu yfir nokkra mánaða skeið. Því hafi svo verið smyglað yfir til Kína.
Þá sést kona frá kommúnistaflokki landsins biðja sölumann á markaðstorgi um framlag til hersins.
„Viðskiptin ganga ekki svo vel hjá mér,“ heyrist sölumaðurinn svara.
„Þegiðu! Ekki koma með afsakanir,“ segir flokksfulltrúinn þá á móti.
Fyrr í þessum mánuði greindu mannúðarsamtök í Suður-Kóreu frá því að hermenn hefðu yfirgefið starfsstöðvar sínar vegna matarskorts frá því í apríl.