Grískir kommúnistar tóku Akrópólishæð í Aþenu með áhlaupi í morgun og hengdu þar upp stóra borða þar sem harðneskju kapítalismans var mótmælt. Umræður hefjast á gríska þinginu í dag um niðurskurðaráform stjórnvalda og er búist við að greidd verði atkvæði um þau á miðvikudag.
Stórir borðar með skilaboðunum „Völdin eru hjá fólkinu sem gefst aldrei upp. Skipuleggið ykkur - veitið andstöðu“ tóku á móti ferðamönnum sem lögðu leið sína upp að hofinu sem er frá fimmtu öld fyrir krist. Breska blaðið The Guardian segir frá þessu.
„Við skorum á vinnandi fólk, ungmenni og konur til að taka þátt í almennri uppreisn okkar. Við munum herða andstöðu okkar gegn harðneskju kapítalismans með samstöðu fólks frá öllum heiminum til þess að koma í veg fyrir að þessar harkalegu aðgerðir sem setja fólkið á hausinn verði að veruleika,“ sagði í yfirlýsingu frá PAME, félagi í kommúnistaflokki landsins.
Verkalýðsfélög hafa lýst yfir 48 klukkustunda verkfalli sem hefst á morgun á sama tíma og umræður um niðurskurðinn fara fram í þinginu. Þá hefur verið boðað til fjöldafunda í 65 borgum og bæjum. Er þetta í fyrsta skipti frá því að lýðræði komst aftur á í landinu árið 1974 sem efnt er til tveggja daga verkfalls.