Allsherjarverkfall er hafið í Grikklandi sem stendur yfir í tvo sólahringa. Á sama tíma hvetur George Papandreou, forsætisráðherra landsins, þingið til þess að samþykkja niðurskurðarfrumvarp stjórnvalda. Búist er við fjöldamótmælum á götum Aþenu í dag og að almenningssamgöngur muni liggja niðri.
Ef aðgerðaráætlun stjórnvalda verður ekki samþykkt gæti Evrópusambandið og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hætt við að lána Grikkjum tólf milljarða evra. Gætu Grikkir þá orðið uppiskroppa með fé innan nokkurra vikna. Breska ríkisútvarpið BBC segir frá þessu.
Nicolas Sarkozy, forseti Frakklands, hefur sagt að franskir bankar séu tilbúnir til þess að bjóða Grikkjum ný lán til þrjátíu ára þegar núverandi lán þeirra lenda á gjalddaga. Sagði hann að önnur Evrópulönd þar sem bankar hefðu lánað Grikklandi væru að íhuga svipaðar leiðir til að Grikkir geti staðið í skilum með skuldir sínar.