Skemmdir unnar á skipalest

Frá skipalestinni sem ráðist var á í fyrra.
Frá skipalestinni sem ráðist var á í fyrra. Reuters

Sænskir og norskir aðgerðarsinnar sem eru á leið til Gaza til þess að storka herkví Ísraelsmanna um landsvæði Palestínumanna segja að skemmdarverk hafi verið framin á skrúfu skips þeirra þar sem það lá við höfn í Grikklandi.

Skipið Juliano er eitt tíu skipa aðgerðarsinna sem eru á leið til Gaza. Um borð er fólk frá Svíþjóð, Noregi og Grikklandi. Lá það við höfn í borginni Piraeus þegar skrúfan var skemmd. Er skipið því fast þar til í lok viku á meðan viðgerðir standa yfir.

Sagði Torstein Dahle, talsmaður norsku sendinefndarinnar, að atvikið sýndi að einhver væri tilbúinn til að leggja mikið á sig til að stoppa skipalestina. Ísraelsmenn hafa varað við því að þeir muni brjóta á bak aftur allar tilraunir til að brjóta gegn herkví þeirra.

Talsmaður ísraelska hersins hélt því fram í gær að gögn sem leyniþjónusta landsins hefði undir höndum sýndu að öfgamenn í skipalestinni væru birgðir af hættulegum sprengiefnum sem þeir hygðust nota gegn ísraelskum hermönnum.

Skipuleggjendur skipalestarinnar harðneita því hins vegar og segja að hundrað manna sem eru um borð hafi skrifað undir yfirlýsingu gegn ofbeldi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert