Táragasi beitt í Aþenu

Átök hafa brotist út í Aþenu, höfuðborg Grikklands, þar sem fjölmenni hefur komið saman til mótmæla fyrirhuguðum niðurskurði og aðhaldsaðgerðum stjórnvalda. Í dag hófst tvegga sólarhringa allsherjarverkfall í Grikklandi.

Mótmælin hafa að mestu farið friðsamlega fram en á nokkrum stöðum hefur lögregla þurft að beita táragasi í baráttu við mótmælendur, sem hafa kastað grjóti og flöskum í lögreglumenn. Breska ríkisútvarpið segir að litlir eldar hafi verið kveiktir hér og þar.

Um 5.000 lögreglumenn eru í borginni.

George Papandreou, forsætisráðherra Grikklands, hefur sagt að eina leiðin fram á við fyrir Grikki sé að samþykkja áætlunina. Gríska þingið mun greiða atkvæði um hana á morgun.

Verkfallið hefur lamað samgöngur í landinu og alla almannaþjónustu. Bönkum hefur verið lokað og lágmarksmönnun er á sjúkrahúsum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert