Þurrkar ógna lífi í A-Afríku

Börn eru í bráðri lífshættu í Austur-Afríku vegna þurrka
Börn eru í bráðri lífshættu í Austur-Afríku vegna þurrka Reuters

Ríflega 800 börn bætast við dag hvern í flóttamannabúðir í Kenía vegna vaxandi þurrka í Sómalíu Ríflega átta hundruð börn flýja dag hvern skelfilegan þurrk í Sómalíu og öðrum landshlutum í Austur-Afríku. Þau leita skjóls í Dadaab-flóttamannabúðunum í norðausturhluta Kenía.

Starfsmenn Barnaheilla – Save the Children í búðunum segja börnin sem koma frá Sómalíu vera aðframkomin, vannærð og skorta vökva.

Samtökin hafa sett af stað neyðaraðstoð á svæðinu til að hjálpa börnum í hættu vegna þurrkanna í Austur-Afríku, en þetta eru verstu þurrkar á þessu svæði í áratugi.

Þurrkarnir og  gríðarlega hátt matvælaverð leggja líf þúsunda barna og annarra í Sómalíu, Kenía og Eþíópíu í mikla hættu vegna vannæringar. Neyðaraðstoðin felst m.a. í því að veita vannærðum börnum meðferð, útvega matvæli og vatn til berskjaldaðra samfélaga og reyna að hjálpa fólki að takast á við æ meiri þurrka af völdum loftslagsbreytinga, að því er segir í tilkynningu frá Barnaheillum.

20 þúsundir manna hafa komið til Dadaab-búðanna á síðustu tveimur vikur, sem er mikil fjölgun frá meðaltalinu á síðasta ára, 4-6 þúsundir flóttamanna á mánuði. Um tveir þriðju þeirra sem koma eru börn, ef marka má tölur frá Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna.

„Það eru um 1300 manns sem koma á hverjum degi til Dadaab-búðanna og ástand sumra er skelfilegt,“ segir Catherine Fitzgibbon, framkvæmdastjóri Barnaheilla – Save the Children í Kenía, í tilkynningu.

„Aðstæður barna á þessum ferðum hafa verið ógnvekjandi, þau hafa oft misst fjölskyldur sínar á leiðinni og koma í búðirnar í mikilli þörf fyrir öryggi, heilbrigðisþjónustu og eðlilegt líf. Nær hvert einasta barn eða foreldri sem við höfum rætt við, hafa greint okkur frá því að þau séu ekki bara að flýja átökin í Sómalíu, þurrkarnir og matvælaskorturinn eru þeim jafn skeinuhættir nú.“

Sumar fjölskyldnanna, sem hrakist hafa frá heimkynnum sínum vegna þurrka og matarskorts, segjast hafa gengið í ríflega mánuð í gegnum sandauðnir og í brennandi hita í leit að mat, vatni og skjóli. Margar þeirra urðu að skilja við sig þær litlu eignir sem lagt var upp með. 

Fatuma er fjögurra barna móðir. Hún og fjölskylda hennar voru sex vikur að ganga hundruðir kílómetra til Dadaab-búðanna. Starfsfólk Barnaheilla – Save the Children á vettvangi segja að börnin hennar, það yngsta er þriggja ára, hafi komið í búðirnar án skófatnaðar og með fæturna þakta blóði, sandi og blöðrum eftir gönguna.

„Veðrið var mjög erfitt. Það var svo heitt og hvergi skjól,“ segir Fatuma í tilkynningu.

„Okkur vantaði vatn. Það var brunnur í þorpinu okkar en hann þornaði. Slíkt hið sama gerðist í næsta þorpi. Þá vissum við að tímabært væri að fara.“

Þessi straumur flóttamanna eykur enn álagið á Dadaab-flóttamannabúðirnar, bæði hvað varðar pláss og birgðir. Búðirnar eru stærstu flóttamannabúðir í heimi og var upphaflega ætlað að taka á móti 90 þúsund manns. Í dag eru búðirnar þriðji stærsti „bær“ Keníu og heimili ríflega 360 þúsund flóttamanna.

Barnaheill – Save the Children segja að fjöldi nýrra flóttamanna muni gera aðstæður barna sem þegar eru búsett í Dadaab-búðunum verri, þar sem þanþoli búðanna hefur þegar verið náð. Börnin skortir mat, skýli og vernd.

Um 360 þúsund flóttamenn eru í Dadaab-búðunum
Um 360 þúsund flóttamenn eru í Dadaab-búðunum Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert