Gríska þingið hefur samþykkt aðhaldsaðgerðir stjórnvalda sem er ætlað að koma í veg fyrir greiðslufall gríska ríkisins. 155 þingmenn samþykktu aðgerðirnar en 138 sögðu nei.
Aðgerðirnar eru gríðarlega óvinsælar meðal grísks almennings en framundan eru enn frekari niðurskurður og skattahækkanir.
Tveggja sólarhringa allsherjarverkfall hófst í gær og átök geisa í Aþenu.
Gríska ríkið er stórskuldugt og sögðu stjórnvöld að það væri nauðsynlegt að samþykkja aðgerðirnar til að fá lán upp á 110 milljarða evra.
Önnur atkvæðagreiðsla mun fara fram á morgun, en þá verða greidd atkvæði um breytingar á lögum svo koma megi aðhaldsaðgerðunum til framkvæmda.