Ákærum gegn Strauss-Kahn vísað frá?

Líklegt er talið að ákærunum á hendur Dominique Strauss-Kahn verði vísað frá en saksóknarar í málinu hafa efasemdir um vitnisburð þernunnar sem sakaði hann um tilraun til nauðgunar. Er konan sögð hafa ítrekað logið að saksóknurum og svo virðist sem hún hafi tengsl við skipulagða glæpastarfsemi.

Bandaríska dagblaðið The New York Times hefur þetta eftir heimildamönnum í lögreglunni. Sagði blaðið frá þessu skömmu eftir að óvænt var tilkynnt um að Strauss-Kahn kæmi fyrir dómara í dag. Ekki var búist við að það gerðist fyrr en þann 18. júlí. 

Segja heimildamenn blaðsins að innan við degi eftir að hafa sakað Strauss-Kahn um tilraun til nauðgunar hafi þernan talað símleiðis við fanga sem situr inni fyrir stórfellt fíkniefnabrot og ræða við hann um ávinning þess að saka þáverandi framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um nauðgun.

Á fanginn að vera einn nokkurra einstaklinga sem lagði nokkrum sinnum fé inn á reikning þernunnar undanfarin tvö ár að upphæð alls um yfir tíu milljónir króna. Hugsanlegt er talið að um peningaþvætti sé að ræða.

Líklegt er talið að þegar Strauss-Kahn kemur fyrir dómara í dag verði tryggingargjald hans snarlækkað og að honum verði sleppt úr stofufangelsi.

Dominique Strauss-Kahn með lögfræðingum sínum.
Dominique Strauss-Kahn með lögfræðingum sínum. Reuters
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert