Mikill herkostnaður

Flestir hinna föllnu eru almennir borgarar. Myndin er frá al-Shurta …
Flestir hinna föllnu eru almennir borgarar. Myndin er frá al-Shurta al-Rabaa hverfi í Baghdad í Írak. Reuters

Stríð sem Bandaríkin hafa háð eftir hryðjuverkaárásirnar 11. september 2001 hafa valdið dauða 225.000 manna og kostað allt að því 4,4 trilljónir bandaríkjadala, samkvæmt niðurstöðum rannsóknar háskólamanna.

Brown háskóli vann rannsóknina en niðurstöður hennar voru birtar fyrr í þessari viku. Þar er sjónum beint að styrjöldunum í Írak, Afganistan og aðgerðum gegn hryðjuverkamönnum í Pakistan og Jemen sem efnt var til í kjölfar árásanna 11. september 2001.

Skýrsluhöfundar halda því fram að stjórnvöld vanreikni ævinlega mögulega lengd átakanna og kostnaðinn af hernaðaraðgerðunum en ofmeti aftur á móti „þau stjórnmálalegu markmið sem hægt er að ná með beitingu grimmilegs valds“.

Í skýrslunni segir m.a. að „samkvæmt mjög varfærnu mati“ hafi um 225.000 manns fallið og 365.000 manns særst í átökunum til þessa.

Nálægt 31.741 hermaður hefur fallið, þar á meðal um 6.000 bandarískir hermenn, 1.200 liðsmenn herja bandamanna Bandaríkjanna, 9.900 írakskir hermenn, 8.800 afganskir hermenn, 3.500 pakistanskir og um 2.300 starfsmenn bandarískra verktaka á sviði öryggisgæslu. 

Mannfall almennra borgara er miklu meira og eru þeir taldir vera nálægt 172.000 talsins. Í þeim hópi eru um 125.000 Írakar, 35.000 Pakistanir og 12.000 Afganir. Skýrsluhöfundar viðurkenna að mjög erfitt sé að áætla fjölda fallinna, sérstaklega hvað varðar uppreisnarmenn og hryðjuverkamenn.

Talið er að á milli 20.000 og 51.000 uppreisnar- og eða hryðjuverkamenn hafi fallið. 

Þá kemur fram í skýrslunni að 168 blaðamenn og 266 starfsmenn líknarsamtaka séu á meðal þeirra sem fallið hafa í átökum frá því að Bandaríkin sögðu „ógninni“ stríð á hendur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert